Dýr mótmæli í Frakklandi

Mótmælt í Frakklandi
Mótmælt í Frakklandi GONZALO FUENTES

Kostnaður franska þjóðarbúsins vegna hinna útbreiddu mótmæla, sem farið hafa fram í landinu að undanförnu, er á bilinu 200 til 400 milljónir evra á dag, segir Christine Lagarde, fjármálaráðherra landsins.

Undanfarið hafa Frakkar mótmælt fyrirhugaðri hækkun eftirlaunaaldurs í 60 ár. Lagarde sagði í útvarpsviðtali í morgun að, auk hins beina kostnaðar sem af mótmælunum hlýst, hafi fréttamyndir af átökum lögreglu og mótmælenda skaðlega áhrif á ímynd Frakklands um allan heim.

„Við eigum ekki að hægja á efnahagsbatanum með baráttuaðferðum sem eru skaðlegar frönsku efnhagslífi og geta komið sér mjög illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki,“ sagði Lagarde.

Séu tölur franska fjármálaráðuneytisins réttar þýðir það að kostnaðurinn, sem hlotist hefur af mótmælunum hingað til, samsvari 1.6-3.2 milljörðum evra.

Námsmenn hafa boðið til frekari mótmæla á morgun og verkalýðshreyfingar hafa boðað allsherjarverkfall á fimmtudag. Stjórnvöld höfðu vonast til þess að miðannarfrí í skólum drægju úr krafti mótmælanna.

Reiknað er með því að löggjafinn samþykki breytingar á eftirlaunalögum á miðvikudag, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, staðfesti lögin um miðjan næsta mánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert