Enginn árangur af hryðjuverkalögum

Enginn var handtekinn fyrir hryðjuverkaglæpi í Bretlandi í fyrra á …
Enginn var handtekinn fyrir hryðjuverkaglæpi í Bretlandi í fyrra á grundvelli hryðjuverkalaga. Reuters

Enginn af þeim rúmlega 100.000 manns sem breska lögreglan stöðvaði og leitaði á í fyrra undir ákvæðum hryðjuverkalaga var handtekinn fyrir glæpi tengda hryðjuverkum. Þetta kemur fram í gögnum sem breska innanríkisráðuneytið birti í dag og breska blaðið The Guardian segir frá.

Tölfræðin sýnir að 504 manns voru handteknir fyrir einhvers konar glæpi af þeim 101.248 sem leitað var á undir ákvæðum hryðjuverkalaga. Það þýðir að hlutfall þeirra sem voru handteknir er 0,5% af þeim sem leitað var á. Meðalhlutfall þeirra sem eru handteknir eftir reglubundnar leitir á götum úti er um 10% á Bretlandi.

David Davis, fyrrverandi talsmaður íhaldsflokksins í innanríkismálum, leggur til að þessum umdeildu aðferðum í stríðinu gegn hryðjuverkum verði hætt.

„Sú ótrúlega staðreynd að enginn hafi verið handtekinn, hvað þá ákærður eða sakfelldur, fyrir glæpi tengda hryðjuverkum sýnir glöggt hversu hrikalega öfugverkandi þessi stefna er,“ sagði Davis.

„Stefna sem elur á biturð og óvild gagnvart minnihlutahópum án þess að ná fram einni einustu sakfellingu í hryðjuverkamálum eykur aðeins hryðjuverkaógnina og hjálpar óvinum okkar.“

Þá sýna tölurnar að 1.834 manns hafi verið handteknir á Bretlandi fyrir glæpi tengda hryðjuverkum á grundvelli hryðjuverkalaga frá árásanna 11. september á Tvíburnaturnana.

Alls var þúsund manns af þeim sleppt án ákæru, 422 voru ákærðir fyrir hryðjuverkaglæpi og 228 fyrir aðra glæpi. Hinir 184 voru beittir öðrum úrræðum eins og að vera afhentir innflytjendayfirvöldum.

Einnig var greint frá því í tölum innanríkisráðuneytisins að yfir 85.000 manns voru yfirheyrðir af lögreglu á flugvöllum og öðrum landamærastöðvum á síðasta ári á grundvelli hryðjuverkalaga. Yfir 2.600 manns var haldið lengur en í klukkustund þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert