Obama skoðaði Búddastyttu

Áður en Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hélt heim á leið frá Japan í morgun notaði hann tækifærið og skoðaði 13 metra háa styttu af Búdda í Kamakura. Sagði Obama, að hann hefði áður skoðað styttuna þegar hann var 6 ára. 

Obama ferðaðist um Asíu í 10 daga og heimsótti Indland, Indónesíu, Suður-Kóreu og Japan.  

„Fyrst þegar ég var hér var ég svona stór," sagði Obama og benti á mittið. Hann skoðaði Búddastyttuna ásamt fylgdarliði. Styttan, sem sýnir Búdda í lótusstellingu, var reist árið 1252 og er talin vega 93 tonn.  

Obama sat með gestgjöfum sínum og borðaði ís með grænu tei, samskonar ís og hann fékk sér þegar hann skoðaði styttuna sem barn. 

„Það er dásamlegt að koma aftur til þessa mikla fjársjóðs japanskrar menningar. Fegurð hans hefur fylgt mér í mörg ár," skrifaði Obama í gestabókina. Hann gat þess einnig að hann hefði keypt tvö armbönd í minjagripaversluninni fyrir dætur sínar, Malia og Sasha.

Barack Obama við Búddastyttuna í morgun.
Barack Obama við Búddastyttuna í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert