AGS á leið til Dublin

Mikill þrýstingur er nú á Íra að samþykkja víðtækar fjárhagslegar …
Mikill þrýstingur er nú á Íra að samþykkja víðtækar fjárhagslegar björgunaðgerðir. Reuters

Von er á fjármálasérfræðingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandinu til Dublin á næstu dögum til að fjalla um  gríðardýrar björgunaraðgerðir til handa Írlandi, að því er breska dagblaðið Guardian greinir frá í dag. Blaðið segir að líkur á að Írar taki við slíkum björgunarpakka hafi aukist eftir fund fjármálaráðherra á evru-svæðinu í gærkvöldi.

Írsk stjórnvöld halda þó enn fast við yfirlýsingar um að Írland þurfi ekki á slíkum björgunaraðgerðum að halda.

Forsætisráðherra Írlands, Brian Cowen, hefur sagt að Írar þurfi ekki á fjárhagslegri aðstoð að halda til að styðja við írska bankakerfið. Aðrir telja nauðsynlegt að Írland fái alls um 80-100 milljarða evra í þessum tilgangi.

Fjármálaráðherra Írlands sagði eftir fund fjármálaráðherra evruríkjanna í gær að það væri ekki óumflýjanlegt að Írland myndi gangast undir áætlun Evrópusambandsins og Aljóðagjaldeyrissjóðsins. Hann sagðist ekki geta sagt til um hvenær viðræður um hugsanlega björgunaráætlun fyrir Írland myndi ljúka. Hann sagði þó að málið væri „knýjandi“, að því er Irish Times, greindi frá. Hann vildi ekki ræða um hversu háar fjárhæðir væri verið að ræða um í þessu samhengi.

„Það er greinilega mikilvægt að þeir sem vilja aðstoða okkur og vinna með okkur, kynni sér allar staðreyndir málsins og þær munum við kynna fyrir þeim í Dublin,“ sagði Lenihan við blaðamenn í Brussel í gær, að loknum fundi fjármálaráðherranna. Hann mætti ríflega klukkutíma of seint á fundinn þar sem hann var fastur í umferðarteppu.

Fjárhagsleg vandræði Írlands eru talin geta haft áhrif á önnur ríki sem taka þátti evrusamstarfinu og eiga þegar í miklum fjárhagslegum vandræðum, s.s. Portúgal og Grikkland.

Samkvæmt fréttum í breskum fjölmiðlum er rætt um að Bretland taki þátt í björgunaðgerðum fyrir Írland með því að leggja til um sjö milljarða punda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert