G7 ríkin funda um Írland

mbl.is

Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna, helstu iðnríkja Vesturlanda,  ætla að halda símafund í kvöld til að ræða efnahagsvanda Írlands eftir að stjórnvöld í Dublin ákváðu að leita alþjóðlegrar aðstoðar vegna vandans. Fréttastofa AFP hefur þetta eftir ríkiserindrekum.

„G7 ráðherrarnir ætla að tala saman eftir að fjármálaráðherrar evrusvæðisins og svo Evrópusambandsins (ESB) hafa talað saman,“ sagði einn af ríkiserindrekunum.

Með því að hafa fulltrúa G7 ríkjanna með koma lönd utan Evrópu á borð við Bandaríkin, Japan og Kanada að borðinu auk stórra evruríkja á borð við Frakkland, Þýskaland og Ítalíu - ásamt Bretlandi, sem ekki tilheyrir evrusvæðinu. Það hefur hins vegar boðið fram aðstoð sína við nágrannann handan Írlandssunds.

G7 ríkjahópurinn þrýsti á ESB að taka ákvörðun um hvort Grikklandi yrði komið til bjargar eftir margra mánaða óvissu þar um. Þá lýstu G7 ríkin ótta sínum um að efnahagslegur óróleiki í Evrópu gæti breiðst út um heiminn.

Óttast hefur verið að mikill vandi írska bankakerfisins, sem er nátengt bankakerfi Bretlands, geti haft slæm áhrif í Norður-Ameríku og víðar ef ekki verður tekið á vandanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert