Lagos verði stærsta borg Afríku

Umferðarteppa í Lagos.
Umferðarteppa í Lagos. Reuters

Sameinuðu þjóðirnar spá því að Lagos í Nígeríu muni taka fram úr Kaíró, höfuðborg Egyptalands, sem stærsta borg Afríku. Fram kemur í nýrri skýrslu SÞ að því sé spáð að íbúar Lagos verði orðnir 12,4 milljónir árið 2015.

Joan Clos, framkvæmdastjóri Búsetusjóðs SÞ (UN-Habitat), segir í samtali við breska ríkisútvarpið að fjöldi íbúa í Afríku muni þrefaldast á næstu 40 árum, því sé nauðsynlegt að Afríkuþjóðirnar fjárfesti í húsnæði.

Clos segir að ríki fyrir sunnan Sahara geti lært af Norður-Afríkuríkjum á borð við Egyptaland, Líbýu, Marokkó og Túnis. En á undanförnum 20 árum hefur fátækrahverfum í löndunum verið fækkað um helming.

Í nýrri skýrslu UN-Habitat kemur fram að Afríka sé sú heimsálfa þar sem borgarvæðing gerist hraðast í heiminum. Árið 2030 muni flestir íbúanna búa í þéttbýli, en ekki í dreifbýli eins og nú er.

Clos segir að fólk telji sig eiga betri möguleika á bjartari framtíð í borgum og því séu þær heillandi kostur.


Götumarkaður með nautgripi í Kaíró.
Götumarkaður með nautgripi í Kaíró. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert