Þúsundir mótmæla á Írlandi

Þúsundir Íra mótmæla í miðborg Dublin niðurskuðaráformum írsku ríkisstjórnarinnar. Lögregla áætlar að mótmælendur séu a.m.k. 50 þúsund. Mótmældur bera spjöld þar sem stendur „Írland er ekki til sölu, ekki til IMF“.

Ríkisstjórn Írlands hefur lagt fram tillögur um gríðarlega mikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum til næstu fjögurra ára í þeim tilgangi að takast á við hallann á ríkissjóði sem stefnir í 32%. Tillögurnar gera ráð fyrir að opinberum starfsmönnum verði fækkað um 25 þúsund.

„Þessi niðurskurður er ekki nauðsynlegur. Það er verið að bjarga bönkunum en ekki Írlandi. Bankarnir ættu að taka á sig höggið,“ sagði Marian Hamilton sem tók þátt í mótmælunum með sjö ára barnabarni sínu.

Það er ekki bara efnahagslegur óstöðugleiki á Írlandi því að ríkisstjórnin stendur mjög höllum fæti pólitískt eftir að stjórnin tapaði aukakosningum. Stjórn Fianna Fail og Græningja hefur nú aðeins tveggja þingsæta meirihluta.

Óvíst er að ríkisstjórnin komi fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið.

Fullyrt er í írskum fjölmiðlum að Írland þurfi að greiða 6,7% vexti af láni sem það fær frá ESB, en lánið er til níu ára. Vextir af láni sem Grikkland fékk vegna sambærilegra erfiðleika eru 5,2%.


Þúsundir íra mótmæla niðurskurðinum.
Þúsundir íra mótmæla niðurskurðinum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert