Lekinn eyðileggur samskipti

Danskur prófessor í stjórnmálafræði segir, að tveir fyrstu umfangsmiklu skjalalekarnir, sem uppljóstrunarsíðan WikiLeaks stóð fyrir um hernaðinn í Afganistan og Írak, hafi verið nauðsynlegir. Lekinn nú, þar sem birtir eru bandarískir sendiráðspóstar, sé hins vegar ónauðsynlegur og skaðlegur því hann eyðileggi diplómatísk samskipti.

WikiLeaks byrjaði í gærkvölkdi að birta sendiráðspóstana og ætlar alls að birta 251.287 skjöl. Danska blaðið Berlingske Tidende hefur eftir Ole Wæver, prófessor í alþjóðasamskiptum við Kaupmannahafnarháskóla, að þetta sé afar vandræðalegt fyrir Bandaríkjastjórn. Önnur ríki muni hér eftir verða mjög treg til að deila upplýsingum með Bandaríkjamönnum vegna  þeirr að þau viti ekki hvenær þær kunni að birtast á síðu WikiLeaks.

Wæver segir að það sé mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn að þeim takist fljótlega að handsama þá sem standa fyrir þessum umfangsmiklu skjalalekum.

François Baroin, talsmaður franskra stjórnvalda, sagði í útvarpsviðtali í morgun, að birting skjalanna væri ógn við lýðræðislegt vald og fullveldi ríkja.

Búið er að birta 226 skjöl af rúmlega 251 þúsund á vef WikiLeaks. Fram kemur að 290 skjöl eru upprunnin í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík, langflest frá árunum 2005 til 2010. Sum þeirra eru merkt sem leyniskjöl. 

Fyrr á þessu ári var  Bradley Manning, 22 ára gamall bandarískur hermaður, handtekinn og ákærður fyrir að leka leyniskjölum, sem hann er talinn hafa komist yfir en hann hafði  aðgang að innra neti bandaríska varnarmálaráðuneytisins.  Meðal gagnanna, sem hann var ákærður fyrir að koma á framfæri, voru skýrslur frá sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík þar sem fjallað var um íslenska ráðamenn og fundi með íslenskum embættismönnum um Icesave-deiluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert