Snjódýptin allt að 60 cm

Vetrarkonungur reynist mönnum oft á tíðum erfiður. Myndin er úr …
Vetrarkonungur reynist mönnum oft á tíðum erfiður. Myndin er úr safni. Reuters

Ofsaveður gengur nú yfir miðvesturhluta Bandaríkjanna og færir sig austur á bóginn. Veðrið hefur sett samgöngur úr skorðum þar í landi en margir flugvellir og þjóðvegir eru lokaðir.

Stormviðvörun hefur verið gefin út fyrir hluta Illinois, Iowa, Michigan, Minnesota og Wisconsin en þessi fylki eru nú á kafi í snjó og hefur vindhraðinn farið upp í 72 km á klst.

Nokkur ríki hafa farið mjög illa út úr veðrinu og þá sérstaklega Minnesota þar sem snjórinn mælist allt að 61 cm. Snjódýptin í stærstu borg Minnesota-ríkis er 43 cm en það er mesta dýptin sem mælst hefur þar í heil 19 ár.

Þá hefur alþjóðaflugvellinum í St.Paul í Minnesota verið lokað vegna veðurs, í fyrsta sinn í mörg ár. Heimavöllur ruðningsliðsins Minnesota Vikings „Metrodome“ skemmdist  í veðrinu. Uppblásið þak vallarins hrundi saman vegna snjóþunga og varð þess valdandi að fresta þurfti leik Víkinganna við New York Giants um óákveðinn tíma.

Flestum vegum í Wisconsin og Iowa hefur verið lokað eða eru ófærir. Búist er við aukinni snjókomu í kvöld og miklu frosti.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert