Margir aldraðir Danir einir um jól

Ekki líður öllum vel á jólum. Mynd úr myndasafni.
Ekki líður öllum vel á jólum. Mynd úr myndasafni.

Samkvæmt danskri rannsókn munu yfir 100.000 Danir borða jólamatinn einir. Flestir þeirra eru á aldrinum 60 - 74 ára.

Oftast er einsemdin ekki að eigin vali, heldur er um að ræða félagslega einangrun og takmörkuð fjölskyldutengsl.

Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken. Þar er haft eftir  Christine E. Swane, sem er menningarfélagsfræðingur, að ekki sé við afkomendurna að sakast. Þetta geti átt sér ýmsar skýringar. Engu að síður sé það mikilvægt að leitast við að sem fæstir þurfi að upplifa slíka einsemd. Það geti leitt til ýmissa vandamála, bæði heilsufarslegra og andlegra. Sannað sé að skortur á félagslegum tengslum valdi ýmsum kvillum og sjúkdómum.

Michael Hviid Jacobsen, prófessor í félagsfræði, segir að velferðarsamfélagið hafi skapað væntingar um að hið opinbera sjái fyrir öllum þörfum aldraðra sem fjölskyldan sinnti áður.

Þetta sé skuggahliðin á velferðarkerfinu, flestir aldraðir eigi bæði fjölskyldu og vini. Það sé algengur hugsunarháttur að búast við  að  einhver opinber starfsmaður sjái um allar þarfir hins aldraða.

Benedikte Kiæ, félagsmálaráðherra Danmerkur, segir að það þurfi að opna umræðu um samábyrgð og þær skyldur sem fólk beri hvort gegn öðru.


mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Sigurbjörg Sigurðardóttir: Jól.
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert