WikiLeaks njóti verndar

Julian Assange og Kristinn Hrafnsson, tveir af forvígismönnum WikiLeaks, í …
Julian Assange og Kristinn Hrafnsson, tveir af forvígismönnum WikiLeaks, í Lundúnum í vikunni. Reuters

Nokkur stór þýsk blöð og þýsk mannréttindastofnun hafa birt áskorun um að uppljóstrunarvefurinn WikiLeaks njóti sömu réttinda og hefðbundnir fjölmiðlar. Óviðeigandi sé að WikiLeaks hafi sætt pólitískum og efnahagslegum þvingunum í kjölfar þess að vefurinn fór að birta bandaríska sendiráðspósta.

Fram kemur á þýska vefnum The Local, að um sé að ræða dagblöðin Der Tagesspiegel, Frankfurter Rundschau og Die Tageszeitung, vikublaðið  Der Freitag, netritið Perlentaucher og Evrópumiðstöðina fyrir stjórnarskrárbundin réttindi, sem hefur höfuðstöðvar í Berlín.

„Netið er ný leið til að dreifa upplýsingum," segir í áskoruninni, sem blöðin birtu í dag. „Það verður að njóta sömu verndar og hefðbundnir fjölmiðlar."

Þá segir í yfirlýsingunni, að þótt hægt sé að gagnrýna WikiLeaks fyrir að birta bandarísku sendiráðspóstana sé það óþolandi ritskoðun að grípa til pólitískra og efnahagslegra aðgerða gegn fjölmiðlinum.  Ríki verði að þola að horfast í augu við eigin leyndarmál. 

Bandarísk stjórnvöld hafa þrýst á stór alþjóðleg fyrirtæki, svo sem MasterCard, PayPal og Amazon um að hætta samvinnu við WikiLeaks. Segir í yfirlýsingu þýsku blaðanna, að þessi þrýstingur afhjúpi yfirgengilega túlkun á lýðræði, þá að upplýsingafrelsi eigi aðeins að gilda ef upplýsingarnar skaða engan.  

„Blaðamennska hefur ekki aðeins rétt til heldur ber henni skylda til að fylgjast með ríkinu og varpa ljósi á gangvirki ríkisstjórna," segir í yfirlýsingunni. Hvetja blöðin fyrirtæki og stjórnvöld til að hætta tilraunum til að þagga niður í WikiLeaks.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert