Tafir vegna snjóa í Evrópu

Snjóruðningstæki á þjóðvegi nálægt Frankfurt.
Snjóruðningstæki á þjóðvegi nálægt Frankfurt. Reuters

Um 490 flugferðir sem áætlaðar voru um flugvöllinn í Frankfurt í Þýskalandi í dag voru felldar niður. Ástæðan var mikil snjókoma sem valdið hefur öngþveiti í samgöngum víða í Evrópu. Fjöldi fólks hefur látið fyrirberast í bílum sínum á snjótepptum vegum allt suður til Ítalíu.

Vetrarveður í Bretlandi veldur því að stærstu flugvellir landsins eru ýmist lokaðir eða flugumferð takmörkuð um þessa síðustu helgi fyrir jólin. Heathrow-flugvöllur í London, fjölfarnasti alþjóðaflugvöllur í heimi, var lokaður lengst af í dag og var opnaður í dag að hluta. Einungis fáar flugvélar fóru þó í loftið þaðan. Ástandið var svipað á Gatwick-flugvelli.

Flugvélar voru einnig kyrrsettar vegna snjókomu á Stansted og Luton-flugvöllum við London og í Birmingham og Southhamton. 

Talsmaður flugvallarins í Frankfurt sagði reiknað með snjókomu um miðjan daginn og geti hún haldið áfram til miðnættis. Ekki var talið ólíklegt að enn fleiri flugferðum af þeim 1.300 sem áætlaðar voru um Frankfurt í dag verði felldar niður.

Mörg hundruð strandaglópa eyddu nóttinni á beddum sem settir voru upp í flugstöðinni í nótt, sumir dvöldu þar aðra nóttina í röð.

Óvenju mikið fannfergi olli því að mörg hundruð flugferða féllu niður á föstudag og laugardag. Vetrarríki á öðrum flugvöllum í Evrópu átti einnig sinn þátt í því. 

Nú er jólaumferð hafin og koma þessar tafir sér illa fyrir fjölda fólks sem ætlaði að ferðast fyrir jólin. Lufthansa flugfélagið hefur ráðlagt fólki að notfæra sér ferðir þýsku járnbrautanna, en þær hafa raunar einnig lent í seinkunum og töfum vegna snjókomunnar.

Eurostar-hraðlestin, sem heldur uppi lestarferðum milli London, Parísar og Brussel, gat ekki haldið fullum hraða og lengdist ferðatíminn um klukkustund.

Þjóðvegir víða um álfuna eru einnig tepptir eða seinfærir vegna snjóa og hálku. Hundruð bílfarþega eyddu nóttinni í bílum sínum í Lancashire í norðvestur Englandi eftir að slys lokaði aðalveginum á svæðinu. Frostið fór niður í -17°C í Norwich í Austur-Englandi. Kuldinn á Gatwick var -11°C í morgun.

Fjölda knattspyrnuleikja í Englandi hefur verið slegið á frest vegna veðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert