Þrír samsekir vegna olíuslyss

Reykur stígur upp frá staðnum þar sem olíuslysið mikla varð …
Reykur stígur upp frá staðnum þar sem olíuslysið mikla varð í apríl sl. í Mexíkóflóa. Reuters

Rannsóknarnefnd, sem Bandaríkjaforseti skipaði vegna olíuslyssins í Mexíkóflóa í apríl sl., varpar ábyrgð á slysinu á fyrirtækin Halliburton og Transocean auk oíufélagsins BP. Nefndin sakar fyrirtækin þrjú um „kerfisbundin“ stjórnunarmistök sem geti verið endurtekin.

Þetta mat var hluti lokaskýrslu rannsóknarnefndarinnar um olíuslysið. Það varð við svonefnda Macondo borholu. Ellefu starfsmenn BP fórust í slysinu og 4,9 milljónir tunna af olíu streymdu út í Mexíkóflóa á þriggja mánaða tímabili.

Nefndin segir að Halliburton, sem er umsvifamikið í þjónustu við oliuiðnaðinn, og borunarfyrirtækið Transocean sem stundar olíuboranir á hafsbotni, eigi einnig stóran þátt í óhappinu. Fyrirtækin hafi hunsað mikilvægar viðvaranir og ekki viðhaft nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir olíulekann.

Bilunin á búnaðinum við borholuna „var afleiðing margra sjálfstæðra rangra skrefa og yfirsjóna af hálfu BP, Halliburton og Transocean. Opinberir eftirlitsmenn höfðu ekki myndugleika, nauðsynlegar bjargir og tæknilega sérhæfingu til að koma í veg fyrir það,“ segir í kafla sem gefinn hefur verið út. Skýrslan verður öll birt í næstu viku.

Transocean átti olíuborpallinn Deepwater Horizon, sem BP leigði, og sökk við slysið. Halliburton viðurkenndi í október sl. að hafa sleppt því að gera mikilvægt próf á sementi fyrir óhappið en kenndi BP um að hafa ekki tekið verkið út í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert