Kynfræðslubók í Pakistan veldur deilum

Mobin Akhtar og kynfræðslubók hans.
Mobin Akhtar og kynfræðslubók hans.

Dr. Mobin Akhtar hefur valdið miklum deilum í heimalandi sínu, Pakistan, en hann hefur gefið út bókina „Kynfræðsla fyrir múslima“. Hefur Akhtar mikinn áhuga á að fræða landa sína um þessi efni í samræmi við reglur íslam.

Akthar, sem er 81 árs, segir þá staðreynd að kynlíf sé ekki rætt í Pakistan hafa alvarlegar afleiðingar. Sem geðlæknir hafi hann orðið vitni að því sjálfur og því hafi honum fundist hann þurfa að skrifa bókina.

„Þetta er stórt vandamál í landinu okkar,“ segir hann. „Þegar unglingar, sérstaklega drengir, komast á kynþroskaaldur og upplifa tilheyrandi breytingar, halda þeir að þær stafi af einhverjum sjúkdómi. Þeir byrja að stunda sjálfsfróun og þeim er sagt að það sé afar hættulegt heilsunni auk þess að vera syndsamlegt.“

Akhtar segist vita um tilfelli þar sem unglingar, sem skildu ekki af hverju líkaminn þeirra var að breytast, urðu þunglyndir og jafnvel frömdu sjálfsmorð. „Ég sjálfur upplifði þennan tíma og allar þessar áhyggjur og það er enginn til þess segja manni annað, og að maður sé fullur af ranghugmyndum.“

Hann segir að jafnvel nú fyrirfinnist margir læknar í Pakistan sem ræði ekki opinskátt um kynlíf og kynfræðslu og kennurum og foreldrum þyki neyðarlegt að ræða um málið. Engin kynfræðsla er kennd í ríkisreknum skólum í landinu. Akhtar segir að í afar íhaldssamri menningu Pakistans þyki óviðeigandi að tala um kynlíf. Það gæti hvatt ungt fólk til að haga sér á „ó-íslamskan“ hátt.

„Ég er spurður við hvaða aldur kynfræðslan eigi að hefjast og ég segir um leið og barnið kann að tala. Það á að kenna þeim nöfnin á kynfærunum á sama tíma og þau læra um hendur, augu, eyru og nef,“ segir Akhtar. „Þegar þau verða eldri og spyrja hvernig börnin verða til, þá á að segja þeim það. Það þýðir ekki að barnið fari í kjölfarið að stunda kynlíf.“

Að mati Akhtar var besta leiðin til að fá foreldra til að skilja það, að skrifa bók þar sem farið væri yfir grunnatriðin í kynfræðslu ásamt upplýsingum um viðhorf íslams á málefnið. Meðal þess sem Akhtar skrifar um í bókinni er hvernig múslimar hugsa um sjálfsfróun, hjónabandserfiðleika og hvernig karlmaður eigi að þvo sér eftir kynlíf svo hann sé nógu hreinn til að biðja bænir.

Hinsvegar þykir mörgum íbúum Pakistans bókin vera ósmekkleg. Akhtar breytti nafninu á bókinni úr Kynfræðsla fyrir múslima í Sérstök vandamál fyrir ungt fólk en það er ekki nóg, að margra mati. „Mér hefur verið hótað. M.a.s. aðrir læknar hafa sakað mig um að vera skottulæknir,“ segir Akhtar. „Stjórnmálamaður dró mig m.a.s. inn á skrifstofuna sína og sakaði mig um að ýta undir klám. Ég útskýrði fyrir honum að ég væri ekki að gera neitt þvíumlíkt.“

Fáar bókabúðir vilja selja bók Akhtars og fá dagblöð vilja auglýsa hana. „Þessi viðbrögð eru sorgleg. Vankunnátta í þessum efnum veldur fjölda ungs fólks óþarfa raunum og við verðum að breyta því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert