Tekist á um réttarhöld yfir 13 ára meintum morðingja

Hæstiréttur í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum tóku í gær fyrir mál 13 ára drengs sem ákærður er fyrir morð en vafi leikur á því hvort rétta eigi yfir honum sem fullorðnum eða ungmenni. Verði fyrri kosturinn fyrir valinu á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Drengurinn var 11 ára þegar hann átti að hafa framið glæpinn. Áður hafði dómstóll á lægra dómstigi úrskurðað að mál hans ætti ekki að fara fyrir unglingadómstól. Skilyrði fyrir því að mál drengsins fari fyrir unglingadómstól er að sýnt verði fram á að endurhæfing sé fyrir hendi, en þá er möguleiki á því að hann geti um frjálst höfuð strokið 21 árs gamall.

Dómstóllinn fann að því að drengurinn sýndi ekki iðrun og breytti engu þó svo lögmenn hans bentu á að hann gæti ekki sýnt iðrun vegna glæps sem hann viðurkennir ekki að hafa framið.

Drengurinn er sakaður um að hafa skotið konu komna átta mánuði á leið. Hann á að hafa skotið hana í höfuðið með haglabyssu í febrúar árið 2009 á heimili hennar í borginni Pittsburgh. Hún var kærasta föður hans.

Málið hefur fengið töluverða athygli og mannréttindasamtök barist fyrir því að úrskurði dómstólsins verði hnekkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert