ElBaradei gagnrýnir Bandaríkjastjórn

Mótmælendur tóku fagnandi á móti Mohamed ElBaradei.
Mótmælendur tóku fagnandi á móti Mohamed ElBaradei. YANNIS BEHRAKIS

Mohamed ElBaradei, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sagði í samtali við CNN að Honsi Múbarak, forseti Egyptalands, yrði strax í dag að segja af sér forsetaembætti. Hann gagnrýnir Bandaríkjastjórn harðlega fyrir að styðja Múbarak.
 ElBaradei, sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2005, gagnrýndi afstöðu Bandaríkjastjórnar til mótmælanna í Egyptalandi og sagði að Bandaríkin „væru að glata trúverðugleika“ með því að styðja Múbarak. Leiðtogar Frakklands, Bretlands og Þýskaland hafa hvatt Múbark til þess „að greiða fyrir stjórnarskiptum í Egyptalandi“, sem er kurteisislegt orðalag um að hann eigi að segja af sér. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa hins vegar verið mjög varfærin í yfirlýsingum. Þau hafa ekki sagt berum orðum að Múbarak eigi að fara frá völdum, heldur einungis sagt að hann verði að hrinda í framkvæmd þeim loforðum sem hann hefur gefið um umbætur í stjórnmálum, efnahagsmálum og félagsmálum. Jafnframt hafa þau hvatt hann til að virða rétt mótmælenda til að tjá hug sinn.
 Bandarísk stjórnvöld hafa studd stjórn Múbarak í mörg ár, bæði fjárhagslega og hernaðarlega. Egypski herinn er að stórum hluta vopnaður bandarískum vopnum. ElBaradei hefur tekið þátt í mótmælagöngum í Egyptalandi, en var um helgina hnepptur í stofufangelsi. Hann hefur boðist til að vera í forystu fyrir bráðabirgðaríkisstjórn fram að kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert