Vilja að Svíar verði norskir

Samkvæmt nýrri reglugerð verður Svíum, sem stunda atvinnu í Noregi, gert skylt að fá sér norska kennitölu og flytja þannig lögheimili sitt til Noregs.

Þetta þykir mörgum Svíanum súrt í broti, en um 28.000 Svíar starfa í Noregi með tímabundna skráningu. En nú lítur allt út fyrir að starfi þeir í Noregi í meira en sex mánuði, þá verði þeim gert skylt að fá sér þarlenda kennitölu.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten.

Opinbera ferlið er það sama og að skrá sig sem innflytjanda til Noregs og þá liggur í augum uppi að það þýðir brottflutning frá Svíþjóð, jafnvel þó að aðrir fjölskyldumeðlimir búi áfram þar.

Fari fólk ekki að þessum lögum, á það á hættu að missa réttinn til að aka bílum sínum í Noregi og missa auk þess réttindi til læknisaðstoðar í landinu.

Margir hafa orðið til þess að mótmæla þessu nýja fyrirkomulagi, þar á meðal viðskiptaráðherra Svíþjóðar, Ewa Björling. „Ég skil ekki hvernig hægt er að þvinga fólk til að flytjast til annars lands,“ sagði Björling.

Afleiðingarnar gætu orðið þær að Noregur myndi missa sænskt vinnuafl, fyrst og fremst í veitingageiranum, í umönnun og í verslunarstörfum. Margt af því fólki myndi fara á atvinnuleysisbætur í Svíþjóð.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert