Svisslendingar kjósa um byssueign

Byssur eru til margs nýtilegar.
Byssur eru til margs nýtilegar. Reuters

Svisslendingar gengu í dag til kjörklefanna, til að kjósa um það hvort viðhalda eigi þeirri hefð að leyfa fólki að hafa byssur úr herþjónustu sinni heima hjá sér. Sviss er það land Evrópu þar sem algengast er að fólk noti skotvopn til að fremja sjálfsvíg, en það er þrefalt algengara þar en í öðrum löndum Evrópu að jafnaði.

Kjörstaðir verða opnir fram á miðjan dag, en flestir hafa nú þegar greitt atkvæði utan kjörstaðar. Fyrstu tölur birtust nú fyrir skammri stundu og bendir flest til þess að Svisslendingar hafi kosið að viðhalda þeirri hefð sinni að vopnaeign í heimahúsum sé algeng.

Atkvæðagreiðslan var knúin fram af nokkrum samtökum auk kirkjunnar og vinstriflokka, sem vilja að í stað þess að fólki leyft að hafa hergögnin heima hjá sér verði þau geymd í þar til gerðum vopnabúrum. Eins og staðan er núna mega menn halda vélbyssunni sinni jafnvel eftir að þeir hætta í hernum.

Þessi hefð var lengi vel hluti af landvarnarstefnu Sviss, sem byggði á því að gera innrás ófýsilegan kost, þar sem borgarar landsins, ekki síst karlmenn, væru alltaf tilbúnir fyrir átök ef til þess kæmi.

Opinber gögn sýna að um það bil tvær milljónir skotvopna frá hernum eru á heimilum fólks í Sviss, en í landinu búa um sjö milljónir manna. Áætlað er að einnig séu þar um 240.000 óskráðar byssur.

AFP fréttastofan tók einn borgara tali. Xavier Schwitzgübel, hermann sem er nú að sinna herskyldu sinni. Hann bendir á að það sé hefð fyrir byssueign í Sviss. „Ef jáið verður ofan á er hætta á því að það gangi af landinu dauðu,” segir hann.

Svissneskt þjóðfélag byggist á trausti á milli borgaranna og ríkisins. „Ef við tökum vopnin af fólki, sem eru táknmynd þessa trausts, þá þýðir það að við séum að rjúfa hið heilaga samband á milli borgarans og lýðræðisins.”

Ríkisstjórn landsins hefur líka hvatt til þess að byssubanninu verði hafnað. Hún heldur því fram að sú löggjöf sem þegar er í gildi í landinu tryggi viðunandi og fullnægjandi vernd borgaranna gegn misnotkun skotvopna.
Það sem hins vegar vegur á móti er að skotárásir hafa orðið í landinu, eins og árið 2001 þegar fjórtán manns voru skotin til bana á þingfundi í Zug-kantónunni.

Skoðanakannanir sýna að mjög skiptar skoðanir eru á málefninu. 47% styðja bannið en 45% eru á móti því. 8% eru óákveðnir. Til að hljóta samþykki þarf bannið að fá stuðning meirihluta kjósenda og stuðning meirihluta kantónanna, sem eru þau svæði eða stjórnsýslueiningar sem saman mynda sambandsríkið Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert