Eistar setja upp rafbílakerfi

Mitsubishi iMiEV rafbíll líkt og þeir sem eistneskir ríkisstarfsmenn munu …
Mitsubishi iMiEV rafbíll líkt og þeir sem eistneskir ríkisstarfsmenn munu aka á næstunni. Mbl.is/Árni Sæberg

Eistnesk yfirvöld tilkynntu í dag að þau hyggist koma upp hleðslukerfi fyrir rafbíla um allt landið. Ríkisstjórnin samþykkti að selja 10 milljón ónýttar kolefniseiningar til japanska bílaframleiðandans Mitsubishi og verður ágóðinn nýttur til að koma rafbílakerfinu upp.

Kolefniseiningar eru viðmið sett af Evrópusambandinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði. Forsætisráðherra Eistlands, Andrus Ansip, segir að með því að selja 10 milljón kolefniseiningar skapist grundvöllur  til að koma á stofn víðfeðmu innra kerfi fyrir rafbíla um allt Eistland. Yfirvöld munu festa kaup á 500 Mitsubishi i-MiEV rafbílum sem notaðir verða af opinberum starfsmönnum. Yfirvöld hafa einnig sett metnaðarfulla áætlun um stuðning við einkafyrirtæki um að uppfæra bílaflota sinn yfir í rafbíla.

„Við vonumst til þess að fyrir árslok 2012 verði 1.000 rafbílar á götum Eistlands," segir Ansip. 250 rafhleðslustöðvar verða settar upp vítt og breitt um landið og þar verður hægt að hlaða rafhlöður bílanna upp í 80% hleðslu á innan við 30 mínútum. „Þetta er mikið frumkvöðlastarf. Framtíðin mun leiða í ljós hvort og hvenær rafbílar verða í almennri notkun en þetta mun hjálpa okkur að fjölga þeim verulega í Eistlandi og spara mikla orku," hefur Afp eftir iðnaðarráðherranum Juhan Parts.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert