Barnaníðingur greiddi skuldir fyrir Ferguson

Andrew prins
Andrew prins AP

Breska blaðið Daily Mail fullyrðir að Bandaríkjamaður, sem dæmdur var fyrir barnaníð, hafi greitt 15.000 pund vegna skulda sem Sarah Ferguson, fyrrverandi eiginkona Andrew Bretaprins, stofnaði til. Bresku blöðin hafa um helgina velt sér upp úr vafasömum málum sem tengjast prinsinum.

Jeffrey Epstein er vellauðugur Bandaríkjamaður sem árið 2006 var dæmdur fyrir barnaníð gagnvart 14 ára stúlku. Síðan hafa margar stúlkur á aldrinum 13 til 17 ára fullyrt að hann hafi staðið fyrir samkvæmum þar sem brotið hafi verið gegn ungum stúlkum. Andrew, sem er næstelsti sonur Elísabetar drottningar, hefur í mörg ár verið vinur þessa manns og hann var m.a. myndaður á göngu með Epstein eftir að honum var sleppt úr fangelsi. Einnig er til mynd af prinsinum þar sem hann heldur utan um 17 ára stúlku sem sakar Epsein um að hafa brotið gegn sér.

Fyrrverandi eiginkona Andrew, Sarah Ferguson, hefur lengi átt í fjárhagslegum erfiðleikum og nú er fullyrt að hún hafi tekið við peningum frá Epstein sem hafi hjálpað henni að greiða skuldir, en Ferguson hafði ekki greitt aðstoðarmanni sínum laun í marga mánuði.

Andrew prins hefur undanfarin ár komið fram fyrir hönd Breta sem eins konar viðskiptasendiherra. Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, gaf til kynna í viðtölum um helgina að ekki væri víst að framhaldi yrði á störfum hans á þessu sviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert