Mótmæli leyst upp í Sýrlandi

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. JAMAL SAIDI

Sýrlenskar öryggissveitir leystu upp mótmæli fyrir utan innanríkisráðuneyti landsins í dag. Fjölskyldur baráttufólks fyrir mannréttindum sem situr í fangelsi stóð fyrir mótmælunum.

Að minnsta kosti fjórir af þeim tugum mótmælenda sem söfnuðust saman fyrir utan ráðuneytið í miðborg Damaskus voru handteknir. Á sama tíma söfnuðust stuðningsmenn forsetans Bashar al-Assad saman til að mótmæla mótmælunum.

Höfðu fjölskyldur 21 baráttumanns fyrir mannréttindum í Sýrlandi tilkynnt að þær hygðust krefjast þess af innanríkisráðherranum Saeed Sammur að þeim yrði sleppt.

Sumir af þeim sem sitja í fangelsi hafa dvalið þar í mörg ár, þar á meðal mannréttindalögfræðingarnir Amwar Bunni og Muhannad al-Hassani. Auk þeirra eru verkfræðingar, læknar og rithöfundar á meðal þessara pólitísku fanga.

Hafa mannréttindasamtök ítrekað hvatt stjórnvöld í Sýrlandi til þess að láta samviskufanga lausa og hætta að beita handahófskenndum handtökum gegn pólitískum andstæðingum og aðgerðarsinnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert