Bónusar fyrir öryggismál

Frá lekasvæðinu á Mexíkóflóa
Frá lekasvæðinu á Mexíkóflóa Reuters

Fyrirtækið Transocean sem bar ábyrgð á rekstri olíuborpalls British Petroleum (BP) á Mexíkóflóa þar sem leki olli miklu umhverfisslysi í fyrra hefur nú greitt æðstu stjórnendum sínum tröllauknar bónusgreiðslur í tilefni góðs árangurs í öryggismálum á liðnu ári. Ásamt BP og Halliburton-olíufélaginu hefur Transocean verið kennt um slysið og mengunina undan ströndum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Frá þessu greinir á vefsíðu BBC.

Transocean hefur statt og stöðugt haldið því fram að BP beri eitt ábyrgð á slysinu.

Níu af þeim ellefu sem létust í á olíupallinum á Mexíkóflóa unnu fyrir Transocean en þrátt fyrir það greinir fyrirtækið frá því að slys og öryggisáföll hafi verið færri nú en áður og að þær uppákomur sem urðu hafi ekki verið eins alvarlegar. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu var þetta besta ár fyrirtækisins frá upphafi í öryggismálum.

„Þrátt fyrir hin harmþrungnu dauðsföll á Mexíkóflóa náðum við fyrirmyndar árangri í tölfræði öryggismála hvað varðar heildarfjölda uppákoma og heildaralvarleika,“ segir í öryggisskýrslu fyrirtækisins.

Lekinn á Mexíkóflóa stóð yfir frá 20. apríl í fyrra og fram í júlí. Milljónir lítra af olíu láku í hafið og menguðu strandir við flóann. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, kallaði slysið 11. september umhverfisslysanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert