15 kvenfóstur fundust á sorphaugum

Indverskar konur sækja drykkjarvatn í brunn við þorpið Siyani í …
Indverskar konur sækja drykkjarvatn í brunn við þorpið Siyani í vesturhluta landsins. Reuters

15 kvenkyns fóstur fundust í krukkum á ruslahaug á Indlandi í gær. Málið vekur athygli, ekki síst í ljósi þess að aðeins eru nokkrir dagar síðan nýjar hagtölur sýndu fram á að stúlkur hafa ekki verið færri í landinu í hlutfalli við drengi frá árinu 1947.

Að sögn lögreglu fundust fóstrin á ruslahaugum skammt frá einkareknu hjúkrunarheimili í héraðinu Bihar, þar sem fátækt er mikil. Nokkur börn sem léku sér í krikket á haugunum fundu krukkurnar. Fóstrin virtust vera á aldrinum 4 til 6 mánaða gömul. Auk 15 kvenkyns fóstra fundust einnig 2 karlfóstur.

Í síðustu viku voru birtar nýjar hagtölur í Indlandi sem sýna að meðal barna undir 6 ára aldri eru kynjahlutföllin nú aðeins 914 stúlkur á móti hverjum 1.000 drengjum. Fyrir áratug voru hlutföllin 927 stúlkur á móti 1.000 drengjum.

Þrátt fyrir að efnahagur Indlands hafi stöðugt vænkast undanfarin 10 ár sýna tölurnar því að ekki hefur tekist að uppræta djúpstæða félagslega hlutdrægni gegn stúlkum í samfélaginu. Mikill þrýstingur er á konur að eignast karlkyns erfingja, þar sem litið er á þá sem fyrirvinnur og höfuð fjölskyldurnar þegar foreldrar komast á efri ár. Gjarnan er litið á stúlkur sem byrði þar sem greiða þarf vænan heimanmund með þeim til að gifta þær.

Saga barnsmorða á stúlkum er löng í Indlandi þar sem stúlkubörn hafa gjarnan verið kæfð, þeim drekkt, eitrað fyrir þeim að þær einfaldlega skildar eftir á víðavangi. Þakka má tækninni fyrir að dregið hefur úr barnsmorðum, en á hinn bóginn hefur fóstureyðingum fjölgað þar sem eina ástæðan er kyn fóstursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert