Svíar fá að verka surströmming áfram

Dós með surströmming.
Dós með surströmming.

Svíar anda nú léttar, eða þyngra, því þeir mega áfram veiða og verka Eystrasaltssíld og framleiða það sem þeir kalla surströmming. Ýmsir hafa fullyrt að þetta sé sú matvara, sem lyktar verst í öllum heiminum. 

Sænsk stjórnvöld tilkynntu í gær, að undanþága frá reglum Evrópusambandsins varðandi viðmiðunarreglur um eiturefni yrði framlengd varðandi Eystrasaltssíldina. Sænska matvælastofnunin vildi að undanþágan yrði afnumin vegna mikils magns af eiturefnum, svo sem díoxíns og PCB, sem finnst í síldinni.

Á vef Dagens Nyheter er haft eftir Eskil Erlandsson, byggðamálaráðherra, að hann telji mikilvægt að vernda þessa hefð og raunar allar strandveiðar á Eystrasaltsströnd Svíþjóðar. Hann viðurkennir hins vegar að sjálfur sé hann ekki sérlega hrifinn af surströmming

Eystrasaltssíldin er látin gerjast í viðartunnum í marga mánuði og síðan sett í niðursuðudósir þar sem gerjunin heldur áfram. Við það bólgnar dósin út og hafa nokkur flugfélög lagt bann við að þessi vara komi inn í flugvélar þeirra vegna hættu á að dósirnar springi. Þegar dósirnar eru opnaðar gýs síðan upp mikill fnykur sem minnir einna helst á rotin egg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert