Berlusconi mun hætta 2013

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu. Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur staðfest fréttir þess efnis að hann muni ekki bjóða sig aftur fram til endurkjörs þegar núverandi kjörtímabili lýkur árið 2013.

Berlusconi segir að áður en hann muni hætta þá muni hann ljúka við að gera breytingar á dómskerfinu og breyta stjórnarskrá landsins, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins.

Í gær samþykkti neðri deild ítalska þingsins lagafrumvarp sem mun stytta lengd ákveðinna réttarhalda. Frumvarpið var samþykkt með 314 atkvæðum á móti 296.

Stjórnarandstöðuþingmenn bauluðu og lýstu yfir vanþóknun sinni á niðurstöðunni. Þeir segja að þetta sé til skammar og henti Berlusconi einstaklega vel.

Efri deild þingsins á hins vegar eftir að samþykkja málið, en þar er ráðherrann með traustan meirihluta.  

Berlusconi er ekki óvanur hneykslismálum og það að þurfa að svara til saka fyrir meint afbrot í starfi. 

Nú standa yfir nokkur réttarhöld yfir ráðherranum, en hann er m.a. sakaður um spillingu og fyrir að hafa greitt fyrir kynlíf með stúlku undir lögaldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert