Þjóðarbandalagið sigraði

Stuðningsmenn Sannra Finna fagna á kosningavöku flokksins í kvöld.
Stuðningsmenn Sannra Finna fagna á kosningavöku flokksins í kvöld. Reuters

Þjóðarbandalagið sigraði í þingkosningunum í Finnlandi í dag. Flokkurinn fékk 20,4% atkvæða en Jafnaðarmannaflokkurinn kom næstur með 19,1%.

Sannir Finnar fengu 19% atkvæða og unnu stórsigur en flokkurinn fékk 4,1% atkvæða í síðustu kosningum fyrir fjórum árum. 

Þjóðarbandalagið fékk 44 þingsæti, tapaði 6, Jafnaðarmannaflokkurinn 42, tapaði 3, Sannir Finnar 39, bætti við sig 34 þingsætum, Miðflokkurinn 35, tapaði 16 sætum, Vinstribandalagið 14, tapaði þremur, Græningjar 10, tapaði 15, Sænski þjóðarflokkurinn hélt sínum 9 auk 1 þingsætis á Álandseyjum, og Kristilegir demókratar fengu 6 þingmenn, töpuðu einum.

Alls setjast 85 nýir þingmenn á finnska þingið en þar sitja 200 þingmenn. Kjörsókn í kosningunum í dag var  70,4% en var 67,9% í kosningunum árið 2007.

Miðflokkurinn, Þjóðarbandalagið, Græningjar og Sænski þjóðarflokkurinn hafa setið saman í ríkisstjórn undanfarin fjögur ár. Jyrki Katainen, fjármálaráðherra og leiðtogi Þjóðarbandalagsins, fær væntanlega það hlutverk að mynda nýja ríkisstjórn. Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, sagðist í kvöld reikna með því, að flokkurinn verði í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil.

Jyrki Katainen, leiðtogi Þjóðarbandalagsins, og Taru Tujunen, framkvæmdastjóri flokksins, fylgjast …
Jyrki Katainen, leiðtogi Þjóðarbandalagsins, og Taru Tujunen, framkvæmdastjóri flokksins, fylgjast með kosningasjónvarpi í kvöld. Reuters
Jutta Urpilainen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, fagnar fyrstu tölum.
Jutta Urpilainen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, fagnar fyrstu tölum. Reuters
Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, var niðurdregin eftir að …
Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, var niðurdregin eftir að hafa heyrt fyrstu tölur. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert