Finnar tala um byltingu

Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna, flettir dagblöðunum í morgun.
Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna, flettir dagblöðunum í morgun. Reuters

Finnskir fjölmiðlar segja, að landsmenn hafi orðið vitni að byltingu í stjórnmálum í gær þegar þjóðernisflokkurinn Sannir Finnar varð þriðji stærsti flokkur landsins  og nærri áttfaldaði þingmannafjölda sinn. 

Flokkurinn fékk 39 þingmenn kjörna en hafði áður 5. 

„Bylting" var fyrirsögnin á forsíðu blaðsins Aamulethi. Blaðið Ilta-Sanomat sagði að fagnaðarlæti Sannra Finna hefði verið „fögnuður gleymdrar þjóðar." 

„Niðurstaða kosninganna segir skýrt, að óánægja og þrá eftir breytingum var staðfest í stuðningi við Sanna Finna," sagði blaðið.

„Auðmýking" var fyrirsögn blaðsins Iltalehti yfir mynd af Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og leiðtoga Miðflokksins, sem beið mikinn kosningaósigur.

Allir helstu fjölmiðlar í Finnlandi spá því, að stjórnarmyndunarviðræður verði afar erfiðar. Þjóðarfylkingin undir stjórn Jyrki Katainen mun stýra viðræðunum en Sannir Finnar hafa hafnað því að ríki Evrópusambandsins leggi til fé til að koma öðrum ESB-ríkjum í skuldavanda til bjargar. Þá vilja þeir að Finnar hætti þátttöku í evru-samstarfinu.

Margir stjórnmálaskýrendur segja, að andstaða flokksins við evruna hafi aflað honum margra atkvæða. Margir Finnar séu afar óánægðir með að þurfa að hlaupa undir bagga vegna þjóða, sem hafa klúðrað sínum efnahagsmálum.  

„Hver hefði trúað því sl. vor, að þingkosningar í Finnlandi yrðu einkennileg þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið og evruna?" sagði Unto Haemaelaeinen, stjórnmálafræðingur, í grein í blaðinu Helsingin Sanomat. „En það gerðist í raun."  

Forvígismenn í Þjóðarfylkingunni, Jafnaðarmannaflokknum og Miðflokknum hafa allir sagt í fjölmiðlum í gærkvöldi og morgun, að árangur Sannra Finna í kosningunum hafi í reynd tryggt þeim sæti í næstu ríkisstjórn landsins.  

Haemaelaeinen segir að eini raunhæfi möguleikinn á stjórnarmyndun sé stjórn stærstu flokkanna þriggja, Þjóðarbandalagsins, Jafnaðarmannaflokksins og Sannra Finna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert