Lúkasjenkó kallaði Barroso asna

Alexander Lúkasjenkó
Alexander Lúkasjenkó Reuters

Alexander Lúkasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, var harðorður í garð skipuleggjenda minningarathafnar um kjarnorkuslysið í Tsjernóbýl og kallaði forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins asna sem Portúgalir hefðu útvegað vinnu hjá ESB til þess að  losna við hann frá Portúgal.

Kjarnorkuslyssins í Úkraínu var minnst með athöfn í dag, og voru forsetar Rússlands og Úkraínu á meðal viðstaddra. Þrátt fyrir að Hvíta-Rússland hafi orðið illa úti í kjölfar slyssins var Lúkasjenko hins vegar ekki viðstaddur.

Þegar hann var spurður hvernig á þessu stæði sagði Lúkasjenko: „Spyrjið Janúkóvitsj [forseta Úkraínu] að því, hvers vegna forseti Hvíta-Rússlands var ekki viðstaddur! Spyrjið hann! Því miður virðast úkraínsk stjórnvöld vera býsna frökk.“

Úkraínskir fjölmiðlar greindu frá því að forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso, hefði farið þess á leit við stjórnvöld í Kiev að hvít-rússneska einræðisherranum yrði ekki boðið. Úkraínumenn urðu við þeirri bón, en vonuðust samt sem áður til þess að hann léti sjá sig.

Lúkasjenkó virðist hins vegar hafa móðgast illa og sagði: „Hvað asna eins og Barroso varðar, þá var eitt sinn Barroso í Portúgal. Honum var sparkað úr landi og honum útvegað starf hjá framkvæmdastjórn ESB.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert