Börnum fer fækkandi í Japan

Japönsk skólabörn taka lagið.
Japönsk skólabörn taka lagið. Reuters

Ekki hafa verið færri börn undir 15 ára aldri í Japan frá því mælingar hófust á sjötta áratug síðustu aldar. Stjórnvöld greindu frá þessu í dag og segja að þjóðin verði sífellt eldri og landsmönnum fækki stöðugt.

Þann 1. apríl sl. voru um það bil 16,93 milljónir barna í landinu. Það eru 90.000 færri börn en á sama tíma í fyrra að sögn innanríkisráðuneytisins.

Tölurnar byggja á upplýsingum frá hagstofu landsins fyrir árið 2010.

Ráðuneytið segir að börn séu 13,2% íbúafjöldans á meðan íbúar sem eru eldri en 65 ára eru 23,2%, og hafa eldri borgararnir aldrei verið fleiri.

Af þeim 27 ríkjum þar sem íbúarnir eru að minnsta kosti 40 milljónir, þá er Japan það land þar sem hlutfall barna af heildarmannfjöldanum er lægst. 

Til samanburðar má nefna að í Bandaríkjunum er hlutfallið 20,1% og 18,5% í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert