Obama vill raunverulegar breytingar á Kúbu

Frá kúbanskri bananaekru. Miðstýringu á landbúnaðarframleiðslu hefur verið aflétt en …
Frá kúbanskri bananaekru. Miðstýringu á landbúnaðarframleiðslu hefur verið aflétt en Obama segir ekki nóg að gert. Reuters

Ef stjórnvöld á Kúbu gera raunverulegar breytingar á stjórn landsins gætu samskipti landsins við Bandaríkin batnað segir Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Ennþá hafi hins vegar engar raunverulegar breytingar átt sér stað.

„Ef við eigum að eiga í eðlilegum samskiptum eins og við eigum við önnur lönd verðum við að sjá mikilvægar breytingar hjá kúbversku ríkisstjórninni og það höfum við enn ekki séð,“ sagði forsetinn í viðtali við sjónvarpsstöð í Míamí í Flórída.

Undanfarið hefur Raúl Castro, forseti Kúbu, tilkynnt um ýmsar breytingar í frelsisátt á eyjunni. Þannig verða samvinnufélög stofnuð til þess að geta af sér lítil einkafyrirtæki og miðstýringu á landbúnaðarframleiðslu aflétt til þess að auka hana. Þá muni Kúbverjar geta keypt og selt bíla og heimili og átt auðveldar með að fá bankalán.

Obama er hins vegar ekki sannfærður.

„Efnahagskerfið er enn allt of afturhaldssamt. Ég myndi taka breytingum á Kúbu fagnandi,“ sagði forsetinn sem hefur slakað á áratugagömlum efnahagsþvingunum gegn Kúbu.

Sagði hann landsmenn verðskulda meira frelsi og að þeir liðu fyrir kúgunaraðgerðir kúbverskra stjórnvalda. „Þegar öllu er á botninn hvolft eru pólitískir fangar þarna sem hefði átt að sleppa fyrir löngu og sem hefði aldrei átt að fangelsa til að byrja með, pólitískt mótmæli eru enn ekki liðin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert