Lík Salvadors Allendes grafið upp

Salvador Allende í forsetahöllinni rétt fyrir andlát sitt.
Salvador Allende í forsetahöllinni rétt fyrir andlát sitt.

Yfirvöld í Síle grófu í dag upp líkamsleifar fyrrverandi forseta landsins, Salvadors Allendes, vegna rannsóknar sem vonast er til að skeri úr um hvort hann hafi fyrirfarið sér eða verið myrtur í valdaráni Augustos Pinochets árið 1973.

Hin opinbera útgáfa sögunnar er sú að Allende hafi svipt sig lífi með riffli, sem var gjöf frá Fidel Castro forseta Kúbu, þegar La Moneda forsetahöllinn varð fyrir sprengjuregni flughersins og ásókn skriðdrefka og hermanna.

Hvorki vopnið né kúlan fundust hinsvegar eftir dauða hans og herstjórn Pinochets kom í veg fyrir að fjölskylda Allendes fengi að sjá líkið eftir valdaránið. Castro og fleiri sósíalískir leiðtogar og fjölmiðlar hafa hinsvegar alla tíð haldið því fram að Allende hafi verið myrtur af hermönnum. Engin rannsókn var gerð á dauða hans á sínum tíma. Dómari í Síle kvað hinsvegar upp þann dóm í apríl að lík Allendes skildi grafið upp. Er það liður í rannsókn á alls 725 óleystum kvörtunum um mannréttindabrot í einræðistíð Pinocets, frá 1973 til 1990.

Fjölskylda Allendes og starfsfólk Rauða krossins voru viðstödd þegar líkamsleifarnar voru grafnar upp í Santiago í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert