Írar vilja aðgerðir gegn Íslandi

„Ég hef þrýst á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að grípa til harðra aðgerða og þar með talið möguleikans á viðskiptaþvingunum gegn báðum þessum aðilum,“ sagði Simon Coveney, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Írlands, á aðalfundi Samtaka írskra fiskframleiðenda og útflytjenda um markríldeilu Íslendinga og Færeyinga við ESB.

Coveney sagði að framganga stjórnvalda á Íslandi og í Færeyjum til þessa væru líklegar til Þess að valda varanlegum skaða á makrílstofninum í Norður-Atlantshafi en stofninn væri mjög mikilvægur fyrir hagsmuni írskra útgerða, sjómanna og sjávarbyggða.

Sagðist ráðherrann ætla að halda áfram að vinna með aðilum innan ESB og yfirmanni sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn sambandsins, Maríu Damanaki, með það að markmiði að ná fram ásættanlegri niðurstöðu í deilunni.

Áður hafa stjórnvöld í Skotlandi og einstakir stjórnmálamenn haft uppi stór orð um þá ákvörðun íslenskra og færeyskra stjórnvalda að gefa út einhliða markrílkvóta í lögsögum sínum þar sem ekki hafa nást samningar um veiðar úr stofninum við ESB og Norðmenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert