Bankar fegra efnahagsreikninginn

Jólaös á Oxford-Stræti.
Jólaös á Oxford-Stræti. Reuters

Rökstuddur grunur leikur á að breskir bankar hafi fegrað efnahagsreikninginn með því að framlengja í húsnæðislánum og eða bjóða upp á að breyta lánunum þannig að aðeins séu greiddir vextir. Slíkar aðgerðir dylji hinn undirliggjandi vanda að margir lántakendur eigi ekki fyrir lánum.

Fjallað er um málið á vef Daily Telegraph en þar segir að síðan á síðari helmingi árs 2007 hafi allt að 300.000 lántakendur í Bretlandi umbreytt fasteignalánum að andvirði 60 milljarða punda, um 11.300 milljarða króna, í lán sem aðeins vextirnir séu borgaðir af.

Vitnað er til þeirrar greiningar breska fjármálaeftirlitsins (FSA) að slíkar bókhaldsaðgerðir kunni að fela hinn undirliggjanda vanda að margir lántakendur eigi í erfiðleikum með að ráða við lánin.

En með því að lýsa lántakendur greiðsluþrota myndu bankarnir stuðla að hruni í fasteignaverði, að minnsta kosti í sumum póstnúmerum, og þannig hafa víðtæk áhrif í hagkerfinu.

Til að setja þessa ályktun í samhengi segir Daily Telegraph að fasteignaverð hafi lækkað um 20% í kreppunni en fordæmislaus aðgangur að lánsfé, í sumum tilvikum langt umfram kaupgetu, leiddi til mikillar eignabólu sem síðan sprakk með alvarlegum afleiðingum fyrir bankakerfið.

Blaðið segir að vextir séu að meðaltali 3,5% og vitnar til þeirrar áætlunar Darrens Winder, hagfræðings hjá fjármálafyrirtækinu Oriel Securities, að ef vextir hækki í 5%, þá prósentu sem þeir voru í fyrir hrun, muni hlutur húsnæðisafborgana af tekjum Breta eftir skatta hækka úr 18% í 21%. 

Þarf vart að taka fram hvaða áhrif það hefði á smásölu í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert