Tapað stríð gegn fíkniefnum

Neysla á fíkniefnum unnum úr valmúa hefur aukist gríðarlega á …
Neysla á fíkniefnum unnum úr valmúa hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum. Reuters

Alþjóðlegt stríð gegn fíkniefnum er tapað og hugsanlega gæti sú aðgerð, að lögleiða efni á borð við maríjúana losað tök skipulagðra glæpaflokka á fíkniefnamarkaði. Þetta er niðurstaða umdeildrar skýrslu alþjóðlegra fyrrum leiðtoga, sem birt var í dag.

Skýrslan er gefin út á vegum Alþjóðaráðsins um fíkniefnastefnu en þar eru þjóðir heims hvattar til að brjóta af sér viðjar launhelgi um umræðu og umbætur á þessu sviði.

„Alþjóðlega stríðið gegn fíkniefnum er tapað með geigvænlegum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélög um allan heim,” segir í skýrslunni.   

Í ráðinu sitja meðal annars    Fernando Cardoso,  fyrrum forseti Brasilíu, Cesar Gaviria, fyrrum forseti Kólumbíu,  Ernesto Zedillo, fyrrum forseti Mexíkó,  Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og rithöfundarnir Carlos Fuentes og Mario Vargas Llosa.  

Í skýrslunni segir, að þær milljónir dala, sem varið hefur verið til baráttunnar gegn fíkniefnaframleiðslu og sölu á undanförnum áratugum hafi greinilega ekki dugað því framleiðsla og eftirspurn fari sívaxandi.  Fíkniefnamarkaðurinn hafi vaxið gríðarlega en þar ráði skipulögð glæpasamtök mestu.  

Þá segir í skýrslunni að aðgerðir gegn neytendum dragi kraftinn úr öðrum opinberum aðgerðum á heilbrigðissviði, svo sem baráttu gegn alnæmi.  

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna jókst neysla á fíkniefnum unnum úr valmúa, svo sem ópíumi og heróíni, um 35,5% milli áranna 1998 og 2008. Neysla á kókaíni jókst um 27% á sama tíma og kannabisneysla um 8,5%.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert