Sakfelldur fyrir að níðast á kind

Fimmtugur sænskur karlmaður var fyrir helgi dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa níðst á kind. Komið var að manninum í júní í fyrra þar sem hann var í kynferðislegum atlotum við kindina á sveitabæ í nágrenni Alingsås í vesturhluta Svíþjóðar.

Það var bóndinn á bænum sem heyrt hafði einkennileg hljóð frá fjárhúsunum sínum og ákvað að kanna hvað gengi á. Kom hann þá að manninum þar sem hann hafði komið sér fyrir aftan við kindina með tilburði sem bentu til þess að hann væri að hafa mök við hana.

Fyrir rétti neitaði maðurinn því að hafa haft mök við kindina en viðurkenndi hins vegar að hafa verið í gleðskap um nóttina og að minni hans frá atburðum hennar væri frekar gloppótt. Dýralæknir staðfesti þó að engin merki væru um að kindin hefði verið sköðuð líkamlega.

En þrátt fyrir að maðurinn neitaði sök þótti framburður bóndans áreiðanlegri og var maðurinn sakfelldur fyrir dýraníð sem fyrr segir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert