Obama: Ekki hægt að skera endalaust niður

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í vikulegu ávarpi sínu í dag að hann muni starfa náið með Bandaríkjaþingi að því að finna lausn á skuldavanda landsins. Obama bendir hins vegar á að það sé ekki endalaust hægt að skera niður.

Viðræður þingmanna um skuldavanda Bandaríkjanna runnu út í sandinn fyrr í vikunni, en repúblikanar eru algjörlega mótfallnir öllum hugmyndum um skatthækkanir.

„Þrátt fyrir að okkur hafi tekist að snúa þjóðarskútunni í rétta átt á undanförnum árum, þá eiga margir Bandaríkjamenn enn um sárt að binda. Nú er komið að því að byggja upp hér heim. Það hefur verið mikil umræða um það hvar eigi að fjárfesta og hvar eigi að skera nður, og ég mun starfa með þingmönnum í báðum flokkum að því að lækka fjárlagahallann og skuldirnar. En við getum einfaldlega ekki skorið niður þar til velmegun næst,“ sagði Obama. 

Búist er við því að Obama muni ræða við leiðtoga þingflokkanna á mánudag. 

Þingmenn hafa unnið að því að komast að samkomulagi til að lækka og breyta skuldaviðmiði ríkisins.

Bandaríska fjármálaráðuneytið segir að fjárhirslurnar muni tæmast þegar skuldir verða gerðar upp þann 2. ágúst nk. og geti þingið ekki hækkað skuldaþakið, sem nú stendur í 14,3 billjónum dala.

Sérfræðingar segja að greiðslufall muni leiða til hruns á mörkuðum víðsvegar um heim. Auk þess sem hætt sé á nýrri kreppu í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert