Útgáfu News of the World hætt

Útgáfu breska sunnudagsblaðsins News of the World verður hætt og mun síðasta blaðið koma út á sunnudag. Þetta hefur Sky sjónvarpsstöðin eftir James Murdoch, forstjóra News Corporation. 

Blaðið hefur sætt harðri gagnrýni upp á síðkastið en svo virðist, sem það hafi stundað víðtækar símhleranir á fyrri hluta síðasta áratugar. 

Murdoch segir í bréfi til starfsmanna News International, að engar auglýsingar frá fyrirtækjum verði birtar í síðasta blaðinu heldur verði góðgerðasamtökum og félögum boðið að auglýsa starfsemi sína án endurgjalds.

Í bréfinu segir Murdoch, að árið 2006 hafi lögregla beint rannsókn á símhlerunum að tveimur mönnum. Báðir hafi verið dæmdir í fangelsisvist. Hins vegar hafi hvorki News of the World né News International tekist að upplýsa um ítrekuð brot, sem framin voru í starfsemi blaðsins. 

„Misgerðamennirnir breyttu góðri ritstjórn í slæma og við gerðum okkur aldrei fulla grein fyrir því," segir Murdoch. Afleiðingin hafi verið sú, að News of the World og News International héldu því ranglega fram, að einum blaðamanni væri um að kenna. Nú hafi stjórnendur fyrirtækjanna veitt lögreglu upplýsingar, sem sýni að þetta var ekki satt og þeir sem brutu af sér verði að taka afleiðingunum.

Þá segir Murdoch að blaðið hafi sent breska þinginu yfirlýsingar án þess að hafa allar staðreyndir á hreinu. Þetta hafi verið rangt.    

News of the World hefur verið eitt söluhæsta blað Bretlands lengi en það hefur verið gefið út í 168 ár. Að meðaltali seldust 2,8 milljónir eintaka af blaðinu í viku hverri í október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert