Allende framdi sjálfsmorð

Fjölskylda Salvador Allende og sérfræðingar tilkynntu í dag að fyrrum …
Fjölskylda Salvador Allende og sérfræðingar tilkynntu í dag að fyrrum forseti Síle hefði framið sjálfsmorð árið 1973 en um það hafði lengi verið deilt. Reuters

Sérfræðingar sem rannsakað hafa lík Salvador Allende, fyrrum forseta Síle, komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði framið sjálfsmorð þegar hermenn umkringdu höll forsetans í valdayfirtöku árið 1973. Frá þessu sagði dóttir forsetans í dag.

„Niðurstaðan er sú sama og Allende fjölskyldan var búin að komast að. Þann 11. september árið 1973 var faðir minn í erfiðum aðstæðum og ákvað að svipta sjálfan sig lífi frekar en að vera niðurlægður,“ sagði Isabel Allende við fjölmiðla.

Engin opinber rannsókn fór fram á dauða Allende á sínum tíma og fjölskylda hans fékk ekki að sjá lík forsetans eftir valdaránið.

Í maí var ákveðið að grafa lík Allende upp í von um að leysa ágreining sem staðið hefur yfir í áratugi. Deilt hafði verið um hvort Allende framdi sjálfsmorð eða hvort hann var myrtur í valdaráninu en nú liggur niðurstaða fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert