Vilja hætta með evruna ásamt Þjóðverjum

Reuters

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar telja 49% hollenskra kjósenda að best væri að Holland yfirgæfi evrusvæðið ásamt efnahagslega sterkari evruríkjum líkt og Þýskalandi. Frá þessu er greint í hollenska tímaritinu Elsevier.

Sjö af hverjum tíu telja ennfremur samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, sem gerð var af fyrirtækinu Maurice de Hond, að ekki sé ásættanlegt að skorið sé niður í Hollandi á sama tíma og hollenska ríkið láni fjármuni til bjargar illa stöddum evruríkjum.

Meira en helmingur, eða 54%, eru andvígir því að Holland láni evruríkjum sem eru í vanda stödd og yfir 60% vilja ekki að Hollendingar veiti Ítalíu neyðarlán ef þörf verði á því. Um 75% sögðust hafa áhyggjur af því að hollenskt efnahagslíf yrði fyrir skaða af efnahagserfiðleikum annarra evruríkja eins og Grikklands og Ítalíu. 

Þá sögðust yfir 60% að þau hefðu viljað að Hollendingar hefðu notast áfram við sjálfstæða mynt í stað þess að taka upp evruna á sínum tíma. Hins vegar vildu aðeins 36% að Holland yfirgæfi evrusvæðið án samflots við önnur ríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert