Tengist mögulega hægriöfgum

Bráðatæknar og björgunarlið á vettvangi í miðborg Osló í dag.
Bráðatæknar og björgunarlið á vettvangi í miðborg Osló í dag. Reuters

Byssumaðurinn sem skaut á báða bóga á Utøya og er bendlaður við sprengingu í Osló er 32 ára Norðmaður, að sögn Aftenposten. Tore  Bjørgo, prófessor við norska lögregluskólann, telur mjög líklegt að ofbeldisverkin í dag megi tengja hægriöfgamönnum, að sögn norska útvarpsins NRK

Flestir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um mannskæða sprengingu í miðborg Osló í dag hafa velt því fyrir sér hvort hana megi rekja til öfgasinnaðra múslíma eða hryðjuverkasamtaka, að sögn NRK. 

Flest bendi til þess að alþjóðleg hryðjuverkaátök beri ekki ábyrgð á sprengingunni. 

Maðurinn sem lögreglan handtók vegna sprengingarinnar og skotárásar á Utøya er hávaxinn, ljóshærður og talar mállýsku af Austurlandi í Noregi. 

Magnus Ranstorp, sænskur sérfræðingur í því sem lýtur að hryðjuverkum, taldi í dag líklegt að Al Qaeda stæði að baki sprengingunni. Hann skipti um skoðun þegar við bættist skotárásin á ungmenni í Verkamannaflokknum. 

Þá taldi hann að óður maður gæti staðið á bakvið voðaverkin. Ólíklegt sé að Al Qaeda standi að árás eins og þeirri sem gerð var á ungmennin.

Bjørgo sagði sprengjuárásina líkjast sprengjuárásinni í Oklahoma City árið 1995 þar sem öfgamaðurinn Timothy McVeigh varð 168 manns að bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert