Herþjálfaður og í skotklúbbi

Lögreglumenn á Utøya eða Útey þar sem fjöldamorðið var framið.
Lögreglumenn á Utøya eða Útey þar sem fjöldamorðið var framið.

Anders Behring Breivik, 32 ára Norðmaður er í haldi norsku lögreglunnar vegna fjöldamorðsins í Útey og grunaður um að hafa staðið að sprengjuárás í Osló. Hann myrti minnst 80 ungmenni sem voru í sumarbúðum á vegum Verkamannaflokksins og sást á ferli.

Behring Breivik lauk frumþjálfun í norska hernum og var félagi í skotklúbbi skammbyssueigenda í Osló, að sögn ABC Nyheter.  Hann var löglega skráður eigandi margra skotvopna, þar á meðal hálfsjálfvirkra. Að öðru leyti var hann ekki þekktur af lögreglunni.

Þá segir fréttavefurinn að Behring Breivik hafi virkur í umræðum á vefsíðum sem eru gagnrýnar á íslam og hann var mjög gagnrýninn á fjölmenningarsamfélagið. Hann mun oft hafa skrifað á vefinn document.no sem er gagnrýninn á íslam. Vefurinn hefur nú tekið saman allar færslurnar og birt. 

Fréttavefur Verdens Gang segir að Behring Breivik hafi kallað sig þjóðernisjafnaðarmann, eða nasista. Hann hafði átt heima í vesturhluta Osló alla ævi þar til fyrir mánuði að hann tilkynnti flutning til Heiðmerkur. 

VG hefur eftir vitnum að bíll hans standi enn á bryggjunni við Útey og í honum hafi fundist mörg vopn, þar á meðal hálfsjálfvirk skotvopn.

Æskufélagi Behring Breivik sagði við VG að hann hefði snúist til hægri öfga þegar hann nálgaðist þrítugt og birt ýmsar vafasamar skoðanir á Facebook. Svo var slökkt á síðunni þar til hann birtist aftur á Facebook og birti þá helst tengla á tónlistarmyndbönd. Hann lýsti sér sem „íhaldssömum“ og „kristnum“ á síðunni.

Hann hafði áhuga á veiðum og tölvuleikjum á borð vð World of Warcraft og Modern Warfare 2.

Fyrir sex dögum stofnaði Behring Breivik reikning á Twitter og sett þar inn eina færslu, tilvitnun í breska heimspekinginn John Stuart Mill:

„One person with a belief is equal to the force of 100.000 who have only interests.“ Í lauslegri þýðingu merkir það að einn einstaklingur með sannfæringu sé jafnoki 100.000 sem hafi bara hagsmuna að gæta.

Behring Breivik stofnaði fyrirtækið Geofarm árið  2009 og kvaðst ætla að rækta grænmeti og rótarávexti. Fyrirtæki í þeirri grein geta keypt mikið af tilbúnum áburði án þess að það veki athygli, en áburðinn má nota sem sprengiefni.

ABC Nyheter segir að ekki sé vitað til þess að Behring Breivik hafi verið í beinu sambandi við öfgahópa á hægri vængnum. Hann var frímúrari og tilheyrði Jóhannesar stúkunni St. Olaus T.D. Tre Søiler. Talsmaður norsku frímúrarahreyfingarinnar kvaðst ekki geta tjáð sig um einstaklinga í reglunni.

Anders Behring Breivik er í haldi norsku lögreglunnar.
Anders Behring Breivik er í haldi norsku lögreglunnar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert