Lögreglan vill lokað dómhald

Mynd af Breivik sem tekin er úr stefnuyfirlýsingu hans, sem …
Mynd af Breivik sem tekin er úr stefnuyfirlýsingu hans, sem birt var með tengli á umræðusíðunni freak.no Reuters

Lögreglan í Osló hefur ákveðið að óska eftir því að dómþingið á morgun, þegar Anders Behring Breivik verður leiddur fyrir dómara, verði haldið fyrir luktum dyrum. Þetta segir lögfræðingur hjá embætti lögreglustjórans, Carol Sandby, í samtali við vefútgáfu norska dagblaðsins VG.

Ástæðan er sú að lögreglan vill ekki gefa Breivik tækifæri til þess að koma hugmyndafræði sinni á framfæri fyrir framan alla helstu fjölmiðla heimsins. Í stefnuyfirlýsingunni sem hann skrifaði, hinu 1.500 blaðsíðna áróðursriti sem kom í leitirnar eftir voðaverkin á föstudag, hefur hann sagst ætla að nota réttarhöldin yfir sér sem stökkpall til að koma boðskap sínum á framfæri.

Það er þó ekki lögreglan sem ákveður hvort dómþing skuli haldið fyrir opnum eða lokuðum dyrum. Því ræður dómarinn hverju sinni. Að þessu sinni er það dómarinn Kim Heger sem kveða mun upp úr um þetta og skera úr um gæsluvarðhald yfir Breivik.

Það verður lögfræðingur að nafni Christian Hatlo sem mun mæla fyrir munn ákæruvaldsins fyrir dómnum á morgun. Lögmaður Breiviks, Geir Lippestad, upplýsti í laugardagsblaði VG í gær, laugardag, að skjólstæðingur hans óski eftir opnu dómþingi.

„Hann vill úskýra af hverju hann gerði það sem hann gerði," sagði Lippestad þá.

Hefðbundið er í héraðsdómi Óslóar að hinn grunaði er færður fyrir dómara með fjölmiðla viðstadda. Þar eftir setjast viðstaddir niður og hinn grunaði skal tilgreina nafn sitt og aðrar persónuupplýsingar. Aðeins eftir að það hefur gerst getur lögreglan óskað eftir því að réttarsalurinn verði rýmdur og dyrunum lokað.

Það er 125. grein norsku dómstólalaganna sem kveður á um það hvenær dómþing skuli háð fyrir luktum dyrum.

Þær ástæður sem þar eru sérstaklega tilgreindar eru: Þegar hagsmunir ríkisins í tengslum þess við erlenda aðila krefjast þess, þegar friðhelgi einkalífs krefst þess, þegar frjáls aðgangur að réttarhöldum er talinn tefja eða skemma fyrir rannsókn máls, þegar hinn ákærði er undir átján ára aldri, þegar orðspor fórnarlambsins krefst þess, þegar hinn ákærði eða vitni óskar eftir því af ástæðum sem dómurinn metur fullnægjandi, þegar vitni er yfirheyrt sem nýtur nafnleyndar, eða á stríðstímum þegar leynd um hernaðaraðgerðir eða öryggismál krefst þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert