Tóku átta ára dreng af lífi

Hamid Karzai, forseti Afganistans.
Hamid Karzai, forseti Afganistans. Reuters

Uppreisnarmenn í suður Afganistan hengdu átta ára dreng á föstudaginn, sex dögum eftir að þeir rændu honum samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá stjórnvöldum í landinu í dag.

Mannræningjarnir höfðu krafist þess að faðir drengsins, sem er lögreglumaður, útvegaði þeim lögreglubifreið en hann neitaði segir í yfirlýsingunni.

Forseti Afganistan, Hamid Karzai, hefur fordæmt verknaðinn í yfirlýsingu. Um sé að ræða glæp sem ekki sé hægt að sætta sig við í neinum menningarheimi eða trúarbrögðum. Ekki liggur fyrir hvort mannræningjarnir séu Talibanar samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Mannrán hafa færst í aukana í Afganistan en fæst þeirra rata í fréttir fjölmiðla og eru leyst bak við tjöldin með greiðslu lausnargjalds segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert