Réttað fyrir luktum dyrum

Fréttamenn bíða utan við dómhúsið í Ósló í morgun.
Fréttamenn bíða utan við dómhúsið í Ósló í morgun. Reuters

Ákveðið hefur verið, að dómþing vegna kröfu um gæsluvarðhald yfir Anders Behring Breivik fari fram fyrir luktum dyrum í Ósló í dag. Breivik óskaði eftir því að réttarhöldin yrðu opin. 

Norska ríkisútvarpið, NRK, segir að ástæðan fyrir því að dómþingið verður lokað sé, að lögregla óttast að hann kynni ella að senda hugsanlegum samverkamönnum sínum dulin skilaboð með yfirlýsingum fyrir dómi.

Mikill fjöldi fréttamanna, bæði norskra og erlendra, er við dómhúsið í Ósló en gert er ráð fyrir að dómþingið hefjist klukkan 11 að íslenskum tíma. NRK segir, að óvenjulegt sé að óskað sé eftir því fyrirfram að réttarhöld af þessu tagi séu lokuð en venjulega komi slík ósk fram við upphaf dómþingsins.

Dómstóllinn segir í úrskurði sínum, að fyrir liggi ákveðnar vísbendingar um að opið réttarhald, þar sem grunaður er viðstaddur, gæti leitt til þess að óvenjuleg og erfið staða kæmi upp með tilliti til öryggismála. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert