Þrír hálshöggnir í dag

Frá Sádíarabíu.
Frá Sádíarabíu. FAHAD SHADEED

Þrír karlmenn voru hálshöggnir í borginni Taef í Sádíarabíu í dag eftir að þeir höfðu verið sakfelldir fyrir morð. Alls hafa þá 37 manns verið hálshöggnir í landinu á þessu ári samkvæmt opinberri talningu og tölum mannréttindasamtaka.

Mahfoudh bin Ali al-Kenani var höggvinn á háls með sverði fyrir að hafa stungið mann til bana eftir deilur. Þá voru tveir bræður einnig teknir af lífi fyrir að skjóta mann til bana.

Þann 10. júní hvöttu mannréttindasamtökin Amnesty International stjórnvöld í Sádíarabíu til þess að hætta að framfylgja dauðarefsingum og sögðu að töluverð fjölgun aftaka hefði átt sér stað á sex vikna tímabili. Héldu samtökin því fram að fimmtán manns hefðu verið teknir af lífi í maí.

Dauðarefsing liggur við nauðgunum, morðum, trúskiptum, vopnuðum ránum og fíkniefnasmygli samkvæmt sjaríalögum sem gilda í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert