Frestaði sumarleyfi

Jose Luis Rodriguez Zapatero
Jose Luis Rodriguez Zapatero Reuters

Forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriguez Zapatero, ákvað að fresta sumarleyfi sínu í morgun vegna efnahagsástandsins.

Skuldatryggingarálag á skuldabréf spænska ríkisins til tíu ára hækkaði í dag og er nú 404 stig og hefur ekki verið hærra frá því evran var tekin upp sem gjaldmiðill.

Zapatero ræddi við fjármálaráðherra Spánar, Elenu Salgado, um stöðu mála í dag og segir hún að skýringin á hækkuninni liggi í skuldakreppunni á evru-svæðinu og efnahagsástandinu í Bandaríkjunum.

Zapatero lét þó efnahagsástandið stöðva sig lengi því í kvöld hélt hann ásamt fjölskyldu sinni til Donana á Suður-Spáni. Hann mun hins vegar snúa aftur til Madrídar síðar í vikunni, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forsætisráðherra.

Starfsmenn í spænska fjármálaráðuneytinu hafa verið í stöðugu sambandi við starfsfélaga í öðrum Evrópuríkjum í dag, einkum Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu. Ört vaxandi ótti er meðal fjárfesta um að Ítalía og Spánn séu næst í röð evru-ríkja sem hafa þurft að leita á náðir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Spænska óeirðalögreglan stöðvaði för mótmælenda í Madríd í dag en þeir reyndu að komast á Puerta del Sol torgið í miðborginni. Torgið hefur verið miðstöð mótmæla í borginni undanfarna mánuði. Talið er að yfir eitt þúsund mótmælendur hafi tekið þátt í göngunni.

Mótmælandi fjarlægður af spænsku óeirðarlögreglunni í dag
Mótmælandi fjarlægður af spænsku óeirðarlögreglunni í dag Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert