Fjármögnuðu kosningabaráttu

Réttarhöld fara nú fram yfir Chirac sem sakaður er um …
Réttarhöld fara nú fram yfir Chirac sem sakaður er um að hafa misnotað almannafé þegar hann var borgarstjóri Parísar 1977-1995. Reuter

Afrískir leiðtogar afhentu Jacques Chirac, fyrrum forseta Frakklands, og Dominique de Villepin, forsætisráðherra í stjórnartíð Chirac, skjalatöskur fullar af peningum, sérstaklega í þeim tilgangi að fjármagna kosningabaráttu þeirra, segir fyrrum ráðgjafi þeirra.

Robert Bourgi, sérfræðingur í málefnum Afríku, var ráðgjafi Chirac og Villepin áður en hann skipti um lið árið 2005 og hóf störf sem ráðgjafi Nicolas Sarkozy, núverandi forseta. Hann segir í dagblaðinu Journal du Dimanche að hann hafi persónulega tekið þátt í því að afhenda Chirac töskurnar í ráðhúsi Parísar, þegar Chirac var borgarstjóri á áttunda og níunda áratugnum.

„Þetta voru aldrei minna en 5 milljónir franka (yfir 750.000 evrur) en gat farið upp í 15 milljónir,“ segir Bourgi og lýsir því nákvæmlega hvernig Chirac bauð honum bjór á meðan hann gekk frá seðlabúntunum.

750 þúsund evrur jafngilda rúmum 120 milljónum króna.

„Ég man eftir fyrsta skiptinu þegar peningarnir voru afhentir í nærveru Villepin. Þeir peningar komu frá Mobutu marskálk (Sese Seko), forseta Zaír.“

„Í aðdraganda forsetakosninganna 2002 spurði Villepin mig beint út hvað þyrfti til,“ segir Bourgi. Fimm afrískir þjóðarleiðtogar hafi komið á skrifstofu Villepin í kjölfarið og lagt til 10 milljón dollara í kosningabaráttuna.

Þeir hafi verið Abdoulaye Wade frá Senegal, Blaise Compaore frá Burkina Faso, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni, Denis Sassou Nguesso frá Kongó og Omar Bongo frá Gabon.

Ásakanirnar þykja varpa ljósi á vafasöm tengsl stjórnmálamanna í Frakklandi við fyrrum nýlendurnar í Afríku en Villepin hefur harðlega neitað að nokkuð að þessu tagi hafi átt sér stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert