Sjö milljarðar Íslendinga í Noregi

mynd/norden.org

Íslendingum í Noregi hefur fjölgað um meira en 60% frá árinu 2009 og nú eru þeir meira en 6.000 talsins. Ástæða er til þess að hafa af þessu áhyggjur, fari fram sem horfir verða þeir sjö milljarðar árið 2068, segir í frétt á vefsíðu norska dagblaðsins Morgenbladet.

Þar segir að umræðan um innrás múslíma í Evrópu hafi fengið mikið rými, en að það þurfi að ræða það hvaða vandamál þessi fjölgun Íslendinga í Noregi geti haft í för með sér. Því er spáð, að muni Íslendingum í landinu halda áfram að fjölga að sama skapi, verði fjöldi þeirra tæplega 65.000 árið 2021. Haldi þessi þróun áfram verður yfir ein milljón Íslendinga í Noregi árið 2030 og 72 milljónir árið 2051, segir í greininni sem reyndar er skrifuð í nokkuð gamansömum tóni.

Í greininni er spurt: „Hefur einhver spurt Norðmenn um hvort þeir vilji alla þessa Íslendinga inn í landið?“

Vísað er til þess að nokkuð rúmar reglur séu um búferlaflutning Norðurlandabúa á milli Norðurlandanna og að Íslendingar eigi tiltölulega hægt um vik að flytja til Noregs. Því er haldið fram að meirihluti þeirra Íslendinga sem hafi flutt til Noregs á undanförnum árum séu „efnahagslegir lukkuriddarar“ í atvinnuleit.

Í greininni er efast um að Íslendingar beri vinarhug til Norðmanna og samskipti landanna frá tíundu öld rifjuð upp, meðal annars hatur Íslendinga á Noregskonungum.

„Menning og siðir Íslendinga eru blóðugir og ofbeldi hefur verið meginaðferð landsmanna til að leysa úr málum,“ segir í greininni og bent er á að nú sé skyr selt í norskum matvöruverslunum og að þannig séu Íslendingar að þvinga „matarvenjum miðalda“ upp á grandalausa Norðmenn.

Greininni lýkur á þeim varnaðarorðum að verði ekkert að gert verði sjö milljarðar Íslendinga búsettir í Noregi árið 2068.

Grein Morgenbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert