Gaddafi á torséðan jeppa

Jeppi frá Mercedes Benz.
Jeppi frá Mercedes Benz.

Franskt fyrirtæki útvegaði stjórnvöldum í Líbíu fyrir þremur árum sérútbúinn jeppa af gerðinni Mercedes Benz sem hannaður var til að vernda Muammar Gaddafi, fyrrverandi leiðtoga landsins, á ferðum sínum. Frönsk stjórnvöld  samþykktu söluna, að sögn fransks netmiðils.

Jeppinn er brynvarinn og með sérstakan búnað til að gera rafkerfi í allt að 100 metra fjarlægð óvirkt og því sést hann ekki á ratsjám.

Franski netmiðillinn Mediapart sagði, að fyrirtækið Amesys, dótturfélag franska tæknifyrirtækisins Bull, hefði séð um búnaðinn í jeppanum. Bull viðurkenndi fyrr í þessum mánuði, að hafa átt viðskipti við stjórn Gaddafis.

Mediapart segir, að Nicolas Sarkozy, núverandi forseti Frakklands og þáverandi innanríkisráðherra, hafi árið 2007 samþykkt að fyrirtækið seldi Gaddafistjórn bílinn. Franska forsetaembættið vildi ekki tjá sig um málið í dag. 

Líbía greiddi fjórar milljónir evra, 640 milljónir króna, fyrir bílinn. Hann var búinn svonefndu Faraday-búri, sem verndar þá sem í bílnum eru fyrir rafsviði. Hann var einnig með búnað til að trufla útvarpssendingar. 

Bíllinn var hluti af 26,5 milljóna evra viðskiptum sem Líbíustjórn átti við Bull-Amezys en fransk-líbanski vopnasalinn Ziad Takieddine hafði milligöngu um viðskiptin. Líbía keypti m.a. búnað sem gerði einræðisstjórninni kleift að fylgjast með netinu í Líbíu og tölvupóstsendingum. 

Ekki er vitað hvar Gaddafi heldur sig en fullyrt var í dag, að Seif al-Islam, sonur hans, hefði sést í borginni Bani Walid, sem herflokkar uppreisnarmanna sitja nú um. Er leitt að því líkum, að Gaddafi eldri sé þar einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert