Grikkir ræða við AGS og ESB

Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands.
Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands. Reuters

Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, á nú símafund með fulltrúum Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og seðlabanka Evrópu, sem hafa sagt Grikkjum að þeir verði að hraða vinnu við niðurskurð ríkisfjármála og eignasölu en ella fái þeir ekki frekari lánafyrirgreiðslu.

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði eftir fundinn að nýr fundur yrði haldinn á morgun en þangað til myndu fara fram viðræður í Aþenu um tæknileg atriði.

Svo virðist, sem fjármálamarkaðir geri nú ráð fyrir því, að gríska ríkið verði gjaldþrota. Á vef Berlingske er m.a. haft eftir Anders Møller Lumholtz, sérfræðingi Danske Bank, að enginn vafi leiki á því að markaðurinn meti það svo að gjaldþrot blasi við. Verð á grískum skuldabréfum miðist nú við, að afskrifa þurfi stóran hluta þeirra.   

Alþjóðlegir lánardrottnar Grikkja gera kröfur um að grísk stjórnvöld stoppi í rúmlega tveggja milljarða evra fjárlagagat. Í dag gagnrýndi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn Grikki fyrir að tefja tímann og standa ekki við áætlanir um eignasölu. Þá hvatti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Grikki til að framfylgja áætlunum um niðurskurð og umbætur í ríkisfjármálum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hafa gefið sterklega til kynna, að herði Grikkir ekki róðurinn í niðurskurði fái þeir ekki átta milljarða evra lán, sem er hluti af samtals 110 milljarða evra láni, sem samþykkt var að veita þeim á síðasta ári.

Grísk stjórnvöld hafa sagt, að fái þau ekki þessa greiðslu sé útlit fyrir greiðslufall gríska ríkisins í október. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert